Flokkunarreglugerð um sjálfbæra atvinnustarfsemi (EU Taxonomy)

Reikningsskilaráð vill vekja athygli á því að félögum sem falla undir gildissvið laga sem samþykkt voru á Alþingi 3. maí 2023 og tóku gildi 1. júní 2023 er gert að innleiða flokkunarkerfi ESB og veita upplýsingar í samræmi við flokkunarkerfið í ársreikningi frá og með árinu 2023. Upplýsingarnar skulu vera í sama hluta skýrslu stjórnar í ársreikningi og  ófjárhagslegar upplýsingar.

 

Flokkunarreglugerðin kveður á um samræmdan ramma sem stuðla á að sjálfbærum fjárfestingum þar sem skilgreint er hvaða atvinnustarfsemi getur talist umhverfislega sjálfbær.

 

Neðangreint eru hlekkir á gagnlega tengla er varðar innleiðingu og beitingu flokkunarreglugerðarinnar.

https://www.althingi.is/altext/153/s/1682.html

 

https://www.efta.int/media/documents/legal-texts/eea/other-legal-documents/translated-acts/icelandic/i32020R0852.pdf

 

https://ec.europa.eu/sustainable-finance-taxonomy/home

Leiðbeiningar um skýrslu stjórnar

Þann 16. febrúar gaf reikningsskilaráð út leiðbeiningar um skýrslu stjórnar og einnig sambærilegar leiðbeiningar sem sérstaklega eru ætlaðar litlum félögum. Tekið hefur verið tillit til þeirra ábendinga sem bárust í samráðsgátt stjórnvalda, eftir því sem við á.

Á næstunni mun ráðið birta á heimasíðu sinni niðurstöður yfirferðar sinnar á þeim athugasemdum sem bárust.

Leiðbeiningarnar má finna á heimasíðu ráðsins undir útgefið efni.

Skipun í reikningsskilaráð 2021 - 2025

Reikningsskilaráð 2021-2025

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTIÐ

Reikningsskilaráð er skipað af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til fjögurra ára í senn skv. 118. gr. laga nr. 3/2006 og skal stuðla að mótun settra reikningsskilareglna með útgáfu og kynningu samræmdra reglna sem farið skal eftir við gerð reikningsskila. Ráðið skal gefa álit á því hvað teljast settar reikningsskilareglur á hverjum tíma. Birta skal reglur reikningsskilaráðs í B-deild Stjórnartíðinda. Ráðið skal starfa í nánu samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og hagsmunaaðila. Það getur einnig verið stjórnvöldum til ráðuneytis um ákvæði sem sett eru í lögum eða reglugerðum um reikningsskil.

Í ráðinu eiga sæti:

  • Jóhanna Áskels Jónsdóttir, formaður, tilnefnd af ársreikningaskrá Ríkisskattstjóra

  • Elín Hanna Pétursdóttir, endurskoðandi, skipuð án tilnefningar

  • Signý Magnúsdóttir, endurskoðandi, tilnefnd af Viðskiptaráði Íslands

  • Sigurjón Geirsson, endurskoðandi, tilnefndur af Samstarfsnefnd háskólastigsins

  • Unnar Friðrik Pálsson, endurskoðandi, tilnefndur af Félagi löggiltra endurskoðenda.

Reikningshaldsleg áhrif COVID-19

Færsla opinberra styrkja og upplýsingar um opinbera aðstoð

Mörg fyrirtæki hafa orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna COVID-19 heimsfaraldursins og hefur ríkisstjórnin gripið til ýmissa aðgerða til að styðja við rekstur þeirra.

Í 1. mgr. 3. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006 kemur fram að sé ekki mælt  fyrir um tiltekið atriði í lögunum eða reglugerðum skuli fara eftir viðeigandi ákvæðum í settum reikningsskilareglum. Settar reikningsskilareglur eru annars vegar reglur reikningsskilaráðs og hins vegar alþjóðlegir reikningsskilastaðlar sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt, samanber 35. tl. 2. gr. ársreikningalaga. 

Í ársreikningalögunum er ekki tekið á því viðfangsefni sem hér er til umfjöllunar, þ.e. áhrifum aðgerða hins opinbera á reikningsskil félaga og reikningsskilaráð hefur ekki gefið út reglu sem tekur á því viðfangsefni. Af því leiðir að fyrirtæki sem gera reikningsskil sín í samræmi við ársreikningalög þurfa eftir því sem við á að beita alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 20 Færsla opinberra styrkja og upplýsingar um opinbera aðstoð.

Alþjóðlega reikningsskilastaðla má finna á íslensku á vef stjórnarráðsins:

https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/vidskipti/arsreikningar/althjodlegir-reikningsstadlar/

Jafnframt má benda á að Evrópska verðbréfaeftirlitið (ESMA) og stóru alþjóðlegu endurskoðunarfélögin hafa gefið út opinberlega ýmsar leiðbeiningar og rit er lúta að áhrifum COVID -19. Má hér nefna yfirlýsingu ESMA vegna áhrifa heimsfaraldursins á árshlutauppgjör. Yfirlýsinguna er að finna á eftirfarandi vefslóð:

https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/arsreikningaskra/ifrs-tilkynningar/yfirlysing-verdbrefaeftirlits-evropu-vegna-ahrifa-heimsfaraldurs-koronuveiru-a-arshlutauppgjor

Þrátt fyrir að það sé ekki hlutverk reikningsskilaráðs að túlka ákvæði alþjóðlegra reikningsskilastaðla er ráðið, eftir því sem við á í samstarfi við ársreikningaskrá, tilbúið að aðstoða við úrlausn álitamála. Haghöfum er því velkomið að senda reikningsskilaráði fyrirspurnir um reikningshaldsleg áhrif úrræða ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 og mun ráðið þá, eftir atvikum með aðstoð ársreikningaskrár, aðstoða við úrlausn þeirra. Æskilegt er að fyrirspurnir séu almennar, skýrt fram settar og varði heildarhagsmuni. Reikningsskilaráð metur hvort fyrirspurnir séu þess eðlis að þær varði starfssvið þess.

Fyrirspurnagátt reikningsskilaráðs: https://reikningsskilarad.is/hafasamband

Upplýsingar um efnahagsaðgerðir sem gripið hefur verið til má finna á vef stjórnarráðsins: https://www.stjornarradid.is/covid-19/#Tab1

Yfirlýsing frá ársreikningaskrá ríkisskattstjóra vegna áhrifa af COVID-19

Minnt er á yfirlýsingu ársreikningaskrár ríkisskattstjóra vegna áhrifa COVID-19 frá 17. mars síðastliðnum. Í henni bendir ársreikningaskrá félögum á að setja fram viðeigandi upplýsingar í skýrslu stjórnar. Þar segir að félögum sé gert að upplýsa um hvort COVID-19 muni hafa áhrif á efnahag, afkomu og sjóðstreymi viðkomandi félags, hvort sem áhrifin munu reynast neikvæð á sumum sviðum en jákvæð á öðrum, í samræmi við ákvæði 65. og 66. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og reglugerðar 696/2019 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga. Um nánari umfjöllun um málið er bent á fyrrgreinda yfirlýsingu sem finna má á eftirfarandi vefslóð:

https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/arsreikningaskra/ifrs-tilkynningar/yfirlysing-fra-arsreikningaskra-rikisskattstora-vegna-ahrifa-af-covid-19

IFRS 9 Fjármálagerningar

ESMA birti yfirlýsingu hinn 23. mars síðastliðinn vegna áhrifa COVID-19 við beitingu á staðlinum IFRS 9 Fjármálagerningar. Megintilgangur yfirlýsingarinnar er að tryggja samræmda beitingu staðalsins og framsetningu upplýsinga í reikningsskilum á Evrópska efnahagssvæðinu í ljósi þess ástands sem nú ríkir. Forsvarsmenn félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum geta kynnt sér efni yfirlýsingar ESMA á eftirfarandi vefslóð:

https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/arsreikningaskra/ifrs-tilkynningar/yfirlysing-verdbrefaeftirlits-evropu-vegna-heimsfaraldurs-koronuveiru

 

Áhrif heimsfaraldurs kórónaveiru (COVID-19) á reikningsskil

Vegna heimsfaraldurs kórónaveiru vill reikningsskilaráð koma eftirfarandi á framfæri.

Ársreikningaskrá hefur gefið út tvær fréttir um þetta efni. Annars vegar er varðar IFRS 9 þar sem vísað er í efni sem ESMA hefur gefið út og hins vegar um skýrslu stjórnar.

Ýmsir hagsmunaaðilar hafa einnig gefið út efni um áhrif kórónaveirunnar á reikningsskil. Má þar til dæmis nefna Deloitte, EY, Grant Thornton, KPMG og PwC.

Að lokum má nefna umfjöllun IASB um áhrif kórónaveiru og umfjöllun IFAC.

Reikningsskilaráð hvetur stjórnendur félaga og aðra haghafa til að kynna sér ofangreint efni.