Sæmundur Valdimarsson skipaður í reikningsskilaráð

Í febrúar 2024 tók Sæmundur Valdimarsson við af Unnari Friðriki Pálssyni sem fulltrúi FLE í reikningsskilaráði. Sæmundur varð löggiltur endurskoðandi árið 1992. Hann er einn af eigendum KPMG ehf. þar sem hann hefur starfað frá árinu 1988. Reikningsskilaráð er skipað til fjögurra ára í senn. Eins og fram kemur í 118. gr. laga um ársreikninga er hlutverk reikningsskilaráðs að stuðla að mótun settra reikningsskilareglna með útgáfu og kynningu samræmdra reglna sem farið skal eftir á hverjum tíma. Í lögunum segir að ráðið skuli starfa í nánu samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og hagsmunaaðila auk þess sem það geti verið stjórnvöldum til ráðuneytis um ákvæði sem sett eru í lögum eða reglugerðum um reikningsskil. Auk Sæmundar sitja nú í reikningsskilaráði Jóhanna Áskels Jónsdóttir, formaður, tilnefnd af ársreikningaskrá, Elín Hanna Pétursdóttir, endurskoðandi, skipuð án tilnefningar, Signý Magnúsdóttir, endurskoðandi, tilnefnd af af Viðskiptaráði Íslands og Sigurjón Guðbjörn Geirsson, endurskoðandi, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins.