Reikningshaldsleg áhrif COVID-19

Færsla opinberra styrkja og upplýsingar um opinbera aðstoð

Mörg fyrirtæki hafa orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna COVID-19 heimsfaraldursins og hefur ríkisstjórnin gripið til ýmissa aðgerða til að styðja við rekstur þeirra.

Í 1. mgr. 3. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006 kemur fram að sé ekki mælt  fyrir um tiltekið atriði í lögunum eða reglugerðum skuli fara eftir viðeigandi ákvæðum í settum reikningsskilareglum. Settar reikningsskilareglur eru annars vegar reglur reikningsskilaráðs og hins vegar alþjóðlegir reikningsskilastaðlar sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt, samanber 35. tl. 2. gr. ársreikningalaga. 

Í ársreikningalögunum er ekki tekið á því viðfangsefni sem hér er til umfjöllunar, þ.e. áhrifum aðgerða hins opinbera á reikningsskil félaga og reikningsskilaráð hefur ekki gefið út reglu sem tekur á því viðfangsefni. Af því leiðir að fyrirtæki sem gera reikningsskil sín í samræmi við ársreikningalög þurfa eftir því sem við á að beita alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 20 Færsla opinberra styrkja og upplýsingar um opinbera aðstoð.

Alþjóðlega reikningsskilastaðla má finna á íslensku á vef stjórnarráðsins:

https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/vidskipti/arsreikningar/althjodlegir-reikningsstadlar/

Jafnframt má benda á að Evrópska verðbréfaeftirlitið (ESMA) og stóru alþjóðlegu endurskoðunarfélögin hafa gefið út opinberlega ýmsar leiðbeiningar og rit er lúta að áhrifum COVID -19. Má hér nefna yfirlýsingu ESMA vegna áhrifa heimsfaraldursins á árshlutauppgjör. Yfirlýsinguna er að finna á eftirfarandi vefslóð:

https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/arsreikningaskra/ifrs-tilkynningar/yfirlysing-verdbrefaeftirlits-evropu-vegna-ahrifa-heimsfaraldurs-koronuveiru-a-arshlutauppgjor

Þrátt fyrir að það sé ekki hlutverk reikningsskilaráðs að túlka ákvæði alþjóðlegra reikningsskilastaðla er ráðið, eftir því sem við á í samstarfi við ársreikningaskrá, tilbúið að aðstoða við úrlausn álitamála. Haghöfum er því velkomið að senda reikningsskilaráði fyrirspurnir um reikningshaldsleg áhrif úrræða ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 og mun ráðið þá, eftir atvikum með aðstoð ársreikningaskrár, aðstoða við úrlausn þeirra. Æskilegt er að fyrirspurnir séu almennar, skýrt fram settar og varði heildarhagsmuni. Reikningsskilaráð metur hvort fyrirspurnir séu þess eðlis að þær varði starfssvið þess.

Fyrirspurnagátt reikningsskilaráðs: https://reikningsskilarad.is/hafasamband

Upplýsingar um efnahagsaðgerðir sem gripið hefur verið til má finna á vef stjórnarráðsins: https://www.stjornarradid.is/covid-19/#Tab1

Yfirlýsing frá ársreikningaskrá ríkisskattstjóra vegna áhrifa af COVID-19

Minnt er á yfirlýsingu ársreikningaskrár ríkisskattstjóra vegna áhrifa COVID-19 frá 17. mars síðastliðnum. Í henni bendir ársreikningaskrá félögum á að setja fram viðeigandi upplýsingar í skýrslu stjórnar. Þar segir að félögum sé gert að upplýsa um hvort COVID-19 muni hafa áhrif á efnahag, afkomu og sjóðstreymi viðkomandi félags, hvort sem áhrifin munu reynast neikvæð á sumum sviðum en jákvæð á öðrum, í samræmi við ákvæði 65. og 66. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og reglugerðar 696/2019 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga. Um nánari umfjöllun um málið er bent á fyrrgreinda yfirlýsingu sem finna má á eftirfarandi vefslóð:

https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/arsreikningaskra/ifrs-tilkynningar/yfirlysing-fra-arsreikningaskra-rikisskattstora-vegna-ahrifa-af-covid-19

IFRS 9 Fjármálagerningar

ESMA birti yfirlýsingu hinn 23. mars síðastliðinn vegna áhrifa COVID-19 við beitingu á staðlinum IFRS 9 Fjármálagerningar. Megintilgangur yfirlýsingarinnar er að tryggja samræmda beitingu staðalsins og framsetningu upplýsinga í reikningsskilum á Evrópska efnahagssvæðinu í ljósi þess ástands sem nú ríkir. Forsvarsmenn félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum geta kynnt sér efni yfirlýsingar ESMA á eftirfarandi vefslóð:

https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/arsreikningaskra/ifrs-tilkynningar/yfirlysing-verdbrefaeftirlits-evropu-vegna-heimsfaraldurs-koronuveiru